Fyrirtækið Mentor fékk afhentan Vaxtarsprotann 2008 við athöfn í Grasagarðinum í Laugardal í síðustu viku en viðurkenning er veitt af Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís), Samtökum iðnaðarins og Háskólanum í Reykjavík og er ætlað að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti.

Mentor þróar og selur upplýsingakerfi sem ætlað er að auka upplýsingaflæði milli skóla, foreldra og sveitarfélaga en nær allir grunnskólar landsins nota Mentor í dag.

Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors, segir kveikjuna að útrás fyrirtækisins hafa verið þátttöku í ÚH (Útflutningsaukning og hagvöxtur) verkefni Útflutningsráðs árið 2004. Þá hafi Mentor verið búið að selja kerfi sitt í flesta skóla landsins og vantað frekari áskoranir.

,,Við þjónum í dag 420 grunnskólum í Svíþjóð og erum auk þess að stíga okkar fyrstu skref í Danmörku og Englandi. Við erum einnig í viðræðum þessa dagana við fyrsta sveitarfélagið í Finnlandi."

Hún segir mikla samkeppni vera á þessum mörkuðum. ,,Okkar sérstaða felst í því að við erum með heildstætt kerfi þar sem notandinn getur nálgast allar aðgerðir á einum stað.”

Vilborg segir Mentor eiga mikla möguleika á erlendum mörkuðum enda séu samkeppnisaðilar þeirra með þung og þreytt kerfi.

,,Við erum með mun notendavænna og sveigjanlegra kerfi þannig að við eigum góða möguleika á að ná góðum árangri."

Hún segir að kerfi þeirra sé hannað til að auðvelda skólum að innleiða og halda utan um einstaklingsmiðað nám með þarfir nemenda, kennara og stjórnenda í huga, á meðan flest önnur kerfi séu einungis hugsuð út frá þörfum stjórnenda.

_____________________________________

Nánar er fjallað um Mentor í viðtali við Vilborgu Einarsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .