Fyrirtækin Mentor og DataMarket skrifuðu undir samstarfssamning í vikunni um þróun einingar sem verður kynnt sem hluti af InfoMentor kerfinu í fimm löndum. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá fyrirtækjunum.

„Sveitarfélögum og skólastjórnendum verður gert mögulegt að fylgjast betur með frammistöðu í sínum skólum með það að markmiði að vinna að umbótum í skólastarfi. Kennarar fá í hendur nýja einingu sem er hluti af InfoMento kerfinu til að vinna markvisst að auknum árangri nemenda. Síðast en ekki síst er þarna um að ræða verulega byltingu í aðgengi og framsetningu upplýsinga fyrir nemendur og foreldra að frammistöðu og framvindu skóla,“ segir í tilkynningunni.

Akureyrarbær, Garðabær og Menntamálaráðuneytið eru samstarfsaðilar að verkefninu á Íslandi sem er styrkt af Tækniþróunarsjóði.