InfoMentor UK er nafn nýs fyrirtækis sem upplýsingatæknifyrirtækið Mentor stofnaði á dögunum í Bretlandi í samstarfi við breska fyrirtækið WebBased Ltd. Fyrirtækið verður að sögn Vilborgar Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Mentors, með skrifstofur í London og Plymouth en hún segir stofnun fyrirtækisins hafa verið kynnta ytra í sambandi við fund David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, með leiðtogum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í London í janúar. Þar var Mentor hluti af íslensku sendinefndinni.

„Þetta er gríðarlega spennandi varðandi vöruþróun þar sem Bretarnir koma með mikla þekkingu inn í kerfið. Það eru miklar breytingar á breska markaðinum þar sem skólarnir taka nú sjálfir ákvörðun um hvaða kerfi þeir kaupa og því eru mikil tækifæri fólgin í því að koma með nýja lausn inn á markaðinn. Við munum byrja á þróunarvinnu með breska fyrirtækinu samtímis sem við skoðum tækifærin á markaðnum,“ segir Vilborg.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir tölublöð.