Bílaframleiðandinn Daimler, sem m.a. framleiðir Mercedes-Benz, hefur sett sér markmið um að vera búinn að skera niður fastan kostnað, fjármagnsútgjöld og rannsóknar- og þróunarkostnað um 25% er árið 2025 gengur í garð. Þá hyggst félagið í auknum mæli leggja áherslu á framleiðslu lúxusbifreiða. Reuters greinir frá.

Er um að ræða talsverða stefnubreytingu hjá Mercedes-Benz, sem er ein af mest seldu bílategundum í heimi. Svo áratugum skiptir hefur bílaframleiðandinn lagt áherslu á sölumagn, en núna er markmiðið að einblína á þann markað sem er arðbærastur innan bílaiðnaðarins - lúxusbílamarkaðurinn.