Mercedes-Benz hyggst hefja innreið sína á rafbílamarkaðinn með eigin gerð rabíla, sem myndu þá keppa við bæði BMW og Tesla Motors.

Veðjar fyrirtækið þannig á að rafbílar geti orðið hagkvæmir til framtíðar. Mun Mercedes bæta við tveimur rafknúnum jeppum og tveimur fólksbílum, samkvæmt heimildum sem ekki vildu láta nafn síns getið í samtali við Bloomberg fréttastofuna .

Velgengni Tesla eykur þrýstinginn

Mun Mercedes framleiða bílana undir eigin undirmerki, þó nafn þeirra hafi ekki enn verið valið. Í júní sagði forstjóri fyrirtækisins, Dieter Zetsche, að fyrirtækið hyggist sýna rafbíl á bílasýningu í París í september.

Velgengni Tesla við að framleiða Model S bílinn hefur aukið þrýstinginn á aðra lúxusbílaframleiðendur, jafnvel þó fyrirtækið hafi þurft að takast á við framleiðsluseinkanir og að fjárhagsmarkmiðum hafi ekki verið náð.

Þýskir neytendur fullir efasemda

Þýskir bílaframleiðendur sjá fram á að þeir verði að geta framleitt rafknúna bíla sem höfði til kaupenda sem og þeir sjá fram á sífellt harðari útblástursreglur.

Enn sem komið hafa þó viðskiptavinir í Þýskalandi, sérstaklega, verið með efasemdir um takmarkaða drægi bílanna, langan tíma sem tekur að hlaða þá, há verð og stundum furðulega hönnun.

Hingað til hefur Mercedes lagt áherslu á að bæta við rafhlöðum og rafmagnsmótorum við þá bíla sem þeir eru núþegar að framleiða.

Rafknúnir vörubílar einnig á leiðinni

Jafnframt hyggst móðurfyrirtæki Mercedes, Daimlar AG framleiða fyrsta rafknúna vörubílinn í byrjun næsta áratugar.

„Þegar Tesla byrjaði fyrir mörgum árum síðan ákváðum við á sínum tíma, og við trúum að það hafi verið rétt ákvörðun, að tæknin væri ekki alveg tilbúin,“ sagði Woflgang Bernhard, yfirmaður vörubílaframleiðslu Daimler í viðtali í síðustu viku. „Nú trúum við því að tíminn sé kominn til að hagnast á rafknúnum ökutækjum á næstu fimm til 10 árum.“