Hvorki fleiri né færri en 652.924 nýir bílar undir merki þýska eðalbílaframleiðandans Mercedes Benz voru seldir á fyrstu sex mánuðum ársins. Mercedes Benz hefur aldrei selt jafn marga bíla á hálfu ár. Þetta jafngildir 6,9% söluaukningu á milli ára. Dregið hefur úr vextinum í Kína.

Söluaukningin hjá Mercedes Benz hefur verið ágæt þrátt fyrir óvissu í heimshagkerfinu. Hún jókst um 5,1% í janúar, 20,3% í febrúar, 11% í mars, 3,6% í apríl og 4% í maí.

Haft er eftir Joachim Schmidt, sölustjóra Mercedes Benz, að gert sé ráð fyrir því að nýi Mercedes Benz A-Class muni auka söluna frekar. „Við erum á góðri leið með að slá sölumetið í fyrra,“ segir hann.