Merck lyfjarisinn hefur greint frá því að búist sé við betri afkomu fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs heldur en sérfræðingar á Wall Street höfðu spáð. Samkvæmt Merck hafa sölutekjur fyrirtækisins á fjölmörgum vörum þess verið mjög öflugar það sem af er árinu.

Merck væntir þess að það muni hagnast á árinu 2007 um 2,55 til 2,65 Bandaríkjadali á hlut, samanborið við fyrri spár þess um 2,51 til 2,59 dollara hagnað á hlut. Hlutabréf í félaginu hækkuðu við opnun markaða í gær úr 43,18 dollurum upp í 44,45 dollara. Merck hyggst tilkynna um afkomu sína á fyrsta ársfjórðungi þessa árs þann 19. apríl næstkomandi.