Angela Merkel, kanslari Þýskalands fór í gær hörðum orðum um stærstu seðlabanka heims og gaf í skyn að peningastefna þeirra gæti frekar ýtt undir áframhaldandi fjármálakrísu frekar en að draga úr henni.

Þetta kemur fram í Financial Times (FT) í dag en blaðið segir Merkel ekki hafa vantað seðlabönkunum kveðjurnar í ræðu sinni sem haldin var á ráðstefnu í Berlín.

Þá segir blaðið að ummæli Merkel, sem hún beindi helst að Seðlabanka Evrópu, Englandsbanka og Seðlabanka Bandaríkjanna, séu ekki síður athyglisverð í ljósi þess að Merkel hefur hingað til alveg látið það vera að gagnrýna seðlabanka almennt enda séu það óskrifaðar reglur í Þýskalandi að stjórnmálamenn gagnrýni ekki seðlabanka til að virða sjálfstæði þeirra.

„Hvað sem aðrir seðlabankar hafa verið að gera hingað til þá þarf að stoppa þá,“ sagði Merkel.

„Ég efast mjög um útþenslu bandaríska seðlabankans og til viðbótar hefur Englandsbanki dregið eigin línur í Evrópu. Þá hefur Seðlabanki Evrópu einnig, upp að vissu marki, gefið eftir alþjóðlegum þrýstingi og keypt upp verðlaus skuldabréf. Ef þetta breytist ekki og bankarnir fara að snúa sér að hefðbundinni starfssemi seðlabanka munum við enda í sömu stöðu eftir 10 ár.“

Þá segir FT að sú ákvörðun Merkel að brjóta fyrrnefnda reglu um samskipti stjórnmálamanna og seðlabanka gefi til kynna að stjórnvöld í Berlín séu langt frá því að vera sátt við stefnu evrópska seðlabankans. Helsta áhyggjuefni ríkisstjórnar Merkel mun vera það að Seðlabanki Evrópu muni ekki ná tökum á því mikla fjármagni sem hann nú dælir út í hagkerfi evrusvæðisins og í kjölfarið lítið ráða við komandi verðbólguþrýsting sem kann að myndast af „stjórnlausri peningaprentun“ eins og heimildarmaður FT orðar það.

FT segir að hingað til hafi Seðlabanki Evrópu frekar einbeitt sér að því að auka fjármagn í umferð á evrusvæðinu en í maí hafi bankinn, líkt og Seðlabanki Bandaríkjanna og Englandsbanki, kynnt áætlanir um að kaupa upp svokölluð eitruð veð af fjármálastofnunum í þeirri von að í kjölfarið geti bankakerfið starfað með eðlilegum hætti í betri markaðsaðstæðum.

Þannig stefnir bankinn að því að kaupa skuldabréfavafninga, sem gefnir eru út af ýmsum fjármálastofnunum og innihalda að mestu fasteignalán á evrusvæðinu, að andvirði 60 milljarða evra. Sú ákvörðun var að sögn FT mikið rædd í bankastjórn bankans en samkvæmt fundagerð bankans var upphaflega rætt um að kaupa skuldabréf að verðmæti 125 milljarða evra en þá hefði það einnig falið í sér kaup á annars konar skuldabréfum, sem einnig væru gefin út af ýmsum stórfyrirtækjum öðrum en fjármálafyrirtækjum.

En það er ekki af ástæðulausu sem Þjóðverjar eru ósáttir við þennan gjörning, sem Merkel segir vera eftirgjöf af alþjóðlegum þrýsting. Enn á eftir að útleggja nánar hvernig kaupin á skuldabréfunum fara fram en það verður ákveðið á fundi bankans á morgun. Viðmælendur FT gera ráð fyrir því að kostnaðinum verði deilt niður á ríki evrusvæðisins eftir stærð þeirra í seðlabankanum, en þar er Þýskaland með 25% stærðarhlutfall – langstærst allra evruríkja. Á sama tíma er gert ráð fyrir að stýrivextir bankans verði áfram 1%.