Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segist enn sannfærð um að hægt sé að ná samkomulagi við Grikki um niðurgreiðslu skulda þeirra gagnvart lánardrottnum. BBC News greinir frá þessu.

Segist hún telja að samkomulag Grikkja við lánardrottna innan Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Seðlabanka Evrópu enn mögulegt. Segir hún að Þýskaland vinni hörðum höndum að því að halda Grikklandi í evrusamstarfinu, en til þess að það sé hægt verði grísk stjórnvöld að standa við umbótaskuldbindingar sínar.

„Ég er enn sannfærð. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi,“ segir Merkel. Fjármálaráðherrar á evrusvæðinu munu hittast á fundi í dag þar sem rædd verða málefni Grikklands.

Grikkland hefur tvær vikur til að ná samkomulagi við lánardrottna, en ella mun ríkissjóður landsins fara í þrot. Seðlabanki Grikklands sagði í fyrsta sinn í gær að landið stefndi hugsanlega í átt að greiðslufalli og að í kjölfarið gæti Grikkland hrakist úr evrusamstarfinu og Evrópusambandinu.