Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur heitið grískum yfirvöldum stuðningi fyrir evrópskum björgunaraðgerðum vegna bágrar fjárhagsstöðu Grikklands.

Frá þessu er greint m.a. á vef BBC en Merkel sagði í samtali við fjölmiðla í dag að Grikkir þyrftu þó að mæta ákveðnum skilyrðum og að taka þyrfti verulega til í hagstjórn landsins ef takast ætti að koma því upp úr því skuldarfargani sem nú sligar efnahag Grikklands.

Þjóðverjar hafa verið gagnrýndir undanfarið fyrir hálfvolgar kveðjur í garð Grikkja en andstaða Þjóðverja er m.a. talin ástæða þess að hvorki evrópski seðlabankinn né Evrópusambandið hafi komið Grikkjum til bjargar þrátt fyrir að eiga mikið undir í evrusamstarfinu.

Merkel svaraði þessari gagnrýni í dag með því að segja að Þjóðverjar væru skuldbundnir til að koma Grikkum til aðstoðar en þó undir fyrrnefndum skilyrðum.

„Ef Grikkir eru tilbúnir til að taka verulega til í sínum málum og mæta ströngum skilyrðum fyrir aðstoð, ekki bara í eitt ár heldur í nokkur ár, þá eigum við góða möguleika á því að tryggja stöðugleika evrunnar okkur öllum í hag,“ sagði Merkel í morgun.

Aðspurðu hafnaði hún jafnframt öllum hugmyndum um að Grikkjum yrði vísað úr evrusamstarfinu