Henrik Normann, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans, segir stjórnmálamenn í ESB ríkjunum ekki fá þá viðurkenningu sem þeir eigi skylda fyrir það hvernig þeir eru að taka á efnahagsvanda svæðisins. „Ég er bjartsýnn á að krísan muni á endanum reynast til góðs. Þegar evran var sett á lagg irnar horfðu menn framhjá því ójafnvægi sem er á milli norður­hluta álfunnar og suðurhlutans. Vextir lækkuðu alls staðar og ríki eins og Grikkland, Ítalía og Spánn gátu tekið lán á kjörum sem þau gátu áður aðeins látið sig dreyma um. Við erum að horfa á afleiðing­arnar núna.

Í raun má segja að það sé lán í óláni fyrir evrusvæðið í heild sinni að krísan kom fyrst upp í Grikklandi. Ekki má gera lítið úr þeim efnahagslegu þjáningum sem gríska þjóðin gengur í gegnum núna en þegar litið er kalt á málið er Grikkland ekki kerfislega mikilvægt fyrir evruna. Grikkland hefur hins vegar verið mjög mikilvæg viðvörun fyrir lönd eins og Ítalíu og Spán og vonandi leiðir þetta til þess að þessi ríki taki almennilega til í ríkisfjár­málum sínum.“

Hann segir að Merkel og aðr­ir leiðtogar ESB hafi haldið eins vel á málum og hægt sé að ætlast til. „Ef strax hefði verið hlaupið út í að gefa út sameiginleg ESB skuldabréf hefði þrýstingurinn á Spán og Ítalíu horfið. Mér þykir Merkel hafa verið mjög fim í því að ýta löndunum fram að brúninni svo þau sjái hversu langt er niður á botninn og svo gefið þeim svigrúm til að grípa til aðgerða. Á endanum verður þó að verða umtals­verð kerfisbreyting á svæðinu öllu en hver hún verður er ómögulegt að spá fyrir um.“

Ítarlegt viðtal við Normann er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.