Þjóðverjar geta ekki endalaust tekið á sig skuldir evruríkja í vanda og er mikilvægt að leggja fram raunhæfar áætlanir til að leysa skuldakreppuna. Skuldabréf evruríkjanna og samræmd innstæðutrygging bankakerfisins er á meðal skýjaborganna, að sögn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

Kanslarinn vísaði öllum skyndilausnum út af borðinu í ræðu sinni á þýska þinginu í dag og lagði áherslu á að Evrópusambandsríkin bindist nánari böndum.

„Þýskaland er sterkt ríki, [...] kjölfesta Evrópu. En styrkurinn er ekki endalaust,“ sagði Merkel.

Reuters-fréttastofan bendir á í umfjöllun sinni að Merkel fundar í næstu viku með leiðtogum 20 stærstu iðnríkja heims þar sem skuldavandi Evrópu og mögulegar lausnir á honum verða á borðinu.