Leiðtogar Frakklands og Þýskalands hafa komið sér saman um drög að áætlun til að vinna á skuldakreppunni á evrusvæðinu. Þetta fullyrðir Angela Merkel, kanslari Þýskalands og vísar á bug fullyrðingum þess efnis að þau Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands hafi ekki náð saman.

Helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu hafa hækkað í dag og bendir það til að fjárfestar séu sama sinnis og Merkel. Eins og Associated Press leggur málið fram gera leiðtogarnir sé fyllilega grein fyrir hugsanlegum afleiðingum þess nái þau ekki saman og sé mikilvægt að þau leggi fram raunhæfa áætlun um björgunaraðgerðir á sunnudag óháð því hver lendingin verður.

Fjármálaráðherrar evruríkjanna hita upp fyrir fundinn á sunnudag í Brussel. Þeir ráða ráðum sínum um skuldakreppuna á myntsvæðinu í dag og ræða um það hvort og þá hvernig björgunarsjóður Evrópusambandsins verði stækkaður, hversu langri líflínu eigi að kasta til Grikklands og hvernig eigi að koma öðrum ríkjum sem komin eru djúpt í skuldafenið til hjálpar.

Hugmyndir Frakka snúast í grófum dráttum um það að björgunarsjóðnum verði breytt í einskonar banka sem hafi ótakmarkaðan aðgang að fjármagni hjá evrópska seðlabankanum til að kaupa skuldir ríkja í kreppu. Því hafa Þjóðverjar og aðrar stöndugar evruþjóðir verið mótfallnir fram til þessa og talað fyrir því að banka og fjárfestar bíti í það súra epli að þeir verði að afskrifa stærri sneið að grískum skuldum áður en landið fái frekari lánafyrirgreiðslu. Þessu eru Frakkar og reyndar evrópski seðlabankinn líka andsnúnir sökum þess að skuldaafskriftir geti strik í efnahagsreikning fjölda banka og fjármálafyrirtækja í Evrópu.

Dominik Geissler, talsmaður Merkel, segir kanslarann neita ða tjá sig um málið að öðru leyti en því að þau Sarkozy hafi náð saman um málið.

Ankela Merkel kanslari Þýskalands.
Ankela Merkel kanslari Þýskalands.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)