Angela Merkel þýskalandskanslari og Martin Schulz, leiðtogi SPD, hófu í dag stjórnarmyndunarviðræður í Þýskalandi. Viðræðurnar, sem hefjast þremur mánuðum eftir að kosið var í Þýskalandi, eru sagðar skipta miklu máli. Flokkur Merkel, CDU, hafði áður reynt að mynda ríkisstjórn en þær viðræður runnu út í sandinn. Schulz hafði áður sagt að SPD tæki ekki þátt í ríkisstjórn með CDU eftir niðurstöður kosninganna, en flokkarnir störfuðu saman í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og hafa gert átta af síðustu tólf árum.

Í frétt á vef BBC segir að stjórnarmyndunarviðræðurnar standi yfir í fimm daga. Margir segja þetta síðasta möguleika Merkel til að mynda ríkisstjórn. Að öðrum kosti kynni að vera kosið aftur.