Angela Merkel hefur tilkynnt að hún hyggist sækjast eftir fjórða kjörtímabilinu sem kanslari Þýskalands og leiðtogi kristilegra demókrata í Þýskalndi, CDU. Segist hún hafa velt ákvörðuninni mikið fyrir sér fram og til baka.

„Að taka ákvörðun um fjórða kjörtímabilið eftir 11 ár er alls ekki auðveld,“ sagði Merkel sem sagði komandi kosningar verða erfiðar.

„Við munum eflaust sæta gagnrýni alls staðar að, bæði frá hægriflokkum og vegna aukins klofnings í samfélaginu, einnig frá vinstriflokknum."

Gagnrýnd vegna flóttamannastraums

Sagði hún mikil átök vera innan Evrópusambandsins vegna evrukrísunnar, vegna flóttamanna og vegna úrsagnar Bretlands úr sambandinu en einnig sé óvissa framtíð vegna stöðunnar í Bandaríkjunum og Rússlandi.

Merkel, sem fyrst var kosin árið 2005 og var fyrsti kvenkyns kanslari Þýskalands, hefur sætt aukinni gagnrýni vegna ákvörðunar hennar um að opna landið fyrir straumi flóttamanna inn í álfuna. Á hinn bóginn virðist hún vera fyrir marga tákn um stöðugleika í óvissum heimi.