Angela Merkel, kanslari Þýskalanda, tjáir sig um efnahagsvandræði Frakklands og Ítalíu í þýska blaðinu Welt am Sonntag, í dag.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað í síðasta mánuði að refsa ríkjunum tveimur ekki fyrir að hafa mistekist að ná settum markmiðum í efnahagsmálum. Ákveðið var að veita Frökkum og Ítölum frest fram á vor til að leggja fram betri áætlanir um hvernig þeir hyggist greiða niður skuldir og halla.

Merkel segir við Welt am Sonntag að þessi ákvörðun sé réttlætanleg, þar sem stjórnvöld í ríkjunum tveimur standi nú í endurbótum á áætlunum sínum. En hún sagði jafnframt: "Framkvæmdstjórnin hefur gert það alveg ljóst að það sem er nú á borðinu er ekki nægilega gott. Ég er sammála því." Orð Merkel hafa jafnan mikið vægi og þykja ummæli hennar til marks um vaxandi þrýsting á ríkin tvö að taka til í ríkisfjármálunum.