Angela Merkel, kanslari Þýskalands, varaði samlanda sína við enn erfiðara ári en því sem senn er á enda, í áramótaávarpi sínu. Hún sagði skuldakrísu evrusvæðisins fjarri því að vera lokið en taldi þó einnig að veigamiklar breytingar sem ætlað sé að taka á rótum vandans séu farnar að skila árangri.

BBC greinir frá ræðunni en hún verður sýnd í þýsku sjónvarpi í dag, mánudag. Ræða Merkel þykir að mörgu leyti stangast á við orð Wolfgang Schaeuble, fjármálarjáðherra Þýskalands, sem sagði í síðustu viku að það versta af fjármálakreppunni væri yfirstaðið.

Stjórnvöld í Þýskalandi lækkuðu hagvaxtarspá fyrir komandi ár í október síðastliðnum. Spáð er 1,0% hagvexti í stað 1,6% áður.