Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hvatti í gær ríki Evrópusambandsins til að reyna að finna lausnir á viðskiptabanni á milli þess og Rússlands. Stjórnvöld í Þýskalandi telja að viðræður þess efnis muni létta á þrýstingi sem sé milli Evrópu og Rússlands, en það velti einnig á því að vopnahlé sem komið var á í Minsk í september komist til framkvæmda.

„Við erum tilbúin í viðræður Evrasíu og Evrópusambandsins um viðskipti þeirra á milli,“ sagði Merkel við þýska þingið af þessu tilefni. Ólíklegt er þó talið að nokkuð verði af slíkum viðræðum á meðan bardagar geisa í austurhluta Úkraínu.

Það sjónarmið kom líka berlega fram í ræðu Merkel, þar sem hún sagði að viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins væru komnar til að vera svo lengi sem Rússar væru þar enn og ekkert afsakaði innlimun Krímskaga. „Hegðun Rússlands spillir friði í Evrópu og brýtur í bága við alþjóðalög,“ bætti hún við.