Hagvöxtur í Bandaríkjunum mældist tveimur prósentum meiri frá júní til og með september á þessu ári miðað tímabilið frá apríl til júní. Þetta er talið vera merki um að efnahagur Bandaríkjanna sé á hægri uppleið, að því er breska ríkisútvarpið BBC greindi frá í dag.

Þó eru enn blikur á lofti. Atvinnuleysi hefur aukist í Bandaríkjunum að undanförnu og mælist nú 10,1%. Búist er við að Seðlabanki Bandaríkjanna muni grípa til frekari aðgerða til þess að efla efnhaginn á næstu vikum. Fastlega er reiknað með því að Seðlabankinn muni tilkynna um að innspýtingu á beinhörðum peningum út í hagkerfið í gegnum útgáfu á ríkisskuldabréfum, að því er BBC greindi frá í dag.

Örlað hefur á meiri bjartsýni á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum að undanförnu. Þar vega væntingar fjárfesta um að betri tíð sé í vændum á mörkuðum miklu. Ýmsir sérfræðingar hafa þó varað við of mikilli bjartsýni, þar sem ýmis merki sjáist um það að enn sé nokkuð í að jafnvægi náist á milli eftirspurnar og framboðs, einkum á hrávörumörkuðum. Framboð af ýmsum vörum, t.d. málmum, sé enn mikið í samanburði við eftirspurn. Sem geti þýtt enn frekari framleiðsluminnkun.