Þensla var á fasteignamörkuðum í Evrópu þrátt fyrir hækkandi stýrivexti en hinsvegar dró úr verðhækkunum í ríkjum eins og Frakklandi, Spáni og Finnlandi en þar hefur þenslan verið einna mest undanfarin ár. Samdrátturinn var hinsvegar mestur á Íslandi og Eistlandi.

Þetta kemur fram í árlegri skýrslu samtaka breskra fasteignamatsmanna (e. Royal Institution of Chartered Surveyors) sem kom út í dag. Niðurstöðurnar sýna almenna hækkun á verði fasteigna víðsvegar um Evrópu en hinsvegar var hún minni en árið á undan.

Í skýrslunni kemur fram að ýmislegt benti til þess að meiri stöðugleiki væri að færast yfir fasteignamarkaðnum í löndum eins og Frakklandi og Spáni en á þeim fyrrnefnda hækkaði fasteignaverð á árinu um sjö prósent miðað við tíu prósent 2005 og um tíu prósent í stað fimmtán prósent á þeim síðarnefnda. Hinsvegar er bent á í skýrslunni að verðhækkanir í löndum eins og Bretlandi, Írlandi og Grikklandi í fyrra bendi til ójafnvægis.

Ástæða almennra hækkana á fasteignamörkuðum í Evrópu er meðal annars rakin til aðgengis að ódýru fjármagni og aukinni eftirspurn samfara fjölgun innflytjenda. Í frétt Dow Jones-fréttaveitunnar um skýrsluna er haft eftir Michael Bell, höfundi hennar og prófessor við Háskólann í Reading, að ólíklegt er að skyndilegt verðfall verði á fasteignamörkuðum í fyrirsjáanlegri framtíð en ef það yrði raunin myndu afleiðingar þess verða einstaklega slæmar á Írlandi og Spáni en undanfarið hefur byggingariðnaðurinn í þeim löndum staðið undir tíu prósent af þjóðarframleiðslu á ári hverju.