Lítil velta hefur verið á fasteignamarkaði það sem af er júní en aðeins var þinglýst 120 kaupsamningum í síðustu viku og 112 kaupsamningum vikuna þar áður en 4 virkir dagar voru í vikunni vegna hvítasunnu, að sögn greiningardeildar Kaupþings banka.

Í júní hafa um 25 ? 30 kaupsamningar verið þinglýstir á degi hverjum en í mars og apríl nam fjöldi þeirra um 40 á dag.

?Samanborið við árin 2002-2005 hefur fjöldi kaupsamninga verið yfir meðaltali frá því í febrúar ef vikurnar í kringum páska eru undanskildar. Í þremur af síðustu fjórum vikum hefur fjöldi kaupsamninga hinsvegar verið undir meðaltali og virðist frávikið fara vaxandi. Þetta er ekki síst áhugavert í ljósi þess að lítið hefur verið um frídaga sem skekkt gæti myndina," segir greiningardeildin.

Líklegt er að fasteignaverð lækki í júní, að mati greiningardeildarinnar ?en velta og verðbreytingar virðast hafa haldið frekar náið saman á fasteignamarkaði."

Greiningardeildin segir að "minnkandi umsvif og lækkun fasteignaverðs ætti ekki að koma á óvart í ljósi vaxtahækkana en fjármagnskostnaður sem hefur hækkað um 10% síðastliðna 12 mánuði. Sömuleiðis hefur framboð húsnæðis vaxið til muna sem dregur verulega úr verðþrýstingi en útlit er fyrir metframboð á húsnæði í ár eða um 4.000 nýjar íbúðir."