Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA segir að innbyrðisáherslumunur sé innan verkalýðshreyfingarinnar ræða sem Samtök atvinnulífsins taki ekki beina afstöðu til. Hann hefur í Viðskiptablaðinu sagt að kröfur um mikla hækkun lægstu launa á sama tíma og vextir verði lækkaðir fyrir komandi kjarasamninga sé illsamrýmanlegt nútímahagfræði.

„Annars vegar er það hækkun lægstu launa sem er virðingarvert markmið sem samtökin hafa stutt með ráðum og dáð á undanförnum árum og hins vegar er krafa um að meta menntun og færni til launa,“ segir Halldór Benjamín sem sér verulega áskorun í þeim kröfum sem fram hafa komið um gríðarlega hækkun lægstu launa á skömmum tíma líkt og Viðskiptablaðið hefur bent á.

„Ef við erum komin með lágmarkslaun upp í þessa kröfu þeirra um 425 þúsund, sem vissulega er verðugt markmið fyrir atvinnulífið til langs tíma, og skattleysismörk þá komin á sama stað, eru ráðstöfunartekjur þeirra með þessi laun þau sömu og þeirra sem eru með um 600 þúsund krónur í mánaðartekjur. Er sátt um það innan raða annarra verkalýðsfélaga?

Síðan er stóra spurningin hver á að bera kostnaðinn af þeirri hækkun, því við getum ekki létt honum af stórum hópum án þess að þeir færist á einhverja aðra. Einhverjir þurfa að bera þessa auknu skattbyrði, sem verða þá væntanlega millitekjuhóparnir. Nema við náum saman um að skera niður í samneyslunni á móti. Það eru þessir útreikningar sem ég kalla eftir því í stóru myndinni munu þessar kröfur hafa áhrif svo víða í samfélaginu og langt út fyrir raðir þeirra sem leggja kröfugerðirnar fram.“

Ljóst er að kostnaðurinn myndi hleypa á hundruðum milljarða, en í svari Bjarna Benediktssonar vegna fyrirspurnar á þingi um hvað ríkið myndi verða af miklum tekjum ef skattleysismörkin færu upp í 300 þúsund kom fram að þá yrði ríkið af 149,3 milljörðum króna. Samtök atvinnulífsins hafa því lagt það til að samtökin og Starfsgreinasambandið greiði sameiginlega fyrir óháð mat á heildarkostnað efnahagslífsins af kröfugerð þeirra síðarnefndu fyrst ekki var búið að gera slíkt mat fyrir.

VR segist hafa gert slíkt mat en hyggst ekki birta það fyrst um sinn eins og fram kom í viðtali við Ragnar Þór formann félagsins í Viðskiptablaðinu , en þar segir hann að kostnaðarmatið geri ráð fyrir lýðheilsulegum ávinningi af aðgerðunum sem ekki komi endilega fram í Excel. „Ég hvet VR eindregið til að deila þessu kostnaðarmati með okkur, enda eins og við segjum í bréfi til Starfsgreinasambandsins, þá er raunhæft kostnaðarmat grundvöllur árangursríkra viðræðna.

Kröfugerðir félaganna eru tvíþættar, það er annars vegar á hendur atvinnulífinu og hins vegar á hendur ríkinu, en það er væntanlega eitthvert samspil þarna á milli, sérstaklega hjá Starfsgreinasambandinu eins og kröfugerðin er orðuð hjá þeim.
Því eins og ég sagði áðan þá get ég ekki skilið það öðruvísi en að viðbragð ríkisins inn í viðræðurnar muni hafa áhrif á okkar samningaviðræður við sambandið sem er merkileg nýjung.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .