Í tilefni af Mottumars, átaki Krabbameinsfélagsins, hefur Netgíró, í samstarfi við Bland.is, ákveðið að standa að uppboði á fjölmörgum munum þjóðþekktra Íslendinga sem og viðburðum tengdum þeim.

Uppboðin hefjast í dag, miðvikudaginn 12. Mars, og standa í 10 daga og rennur allur ágóði óskiptur til Mottumars.

Meðal gripa sem boðnir verða upp má nefna Chelsea stuttbuxur sem Eiður Smári Guðjohnsen lék í, en það er vinur hans Auðunn Blöndal sem gefur þær. Þá verður gítarinn úr kvikmyndinni Málmhaus, sem var í eigu aðalpersónu myndarinnar, boðinn upp en það er Ragnar Bragason leikstjóri sem gefur hann. Og síðan má nefna hlaupabuxur Péturs Jóhanns Sigfússonar úr Reykjavíkurmaraþoninu á síðasta ári en þær hafa ekki verið þvegnar eftir hlaupið.

Þá gefur hljómsveitin Dimma sérsmíðaðan míkrafónstand, útvarpsmaðurinn Ívar Guðmundsson gefur keppnisskó Arnars Grant og leikarinn Jóhannes Haukur gefur átakinu út að borða, leikhús fyrir 2 og tækifæri til að hitta leikara eftir sýningu. Þá má geta þess að leikstjórinn Bragi Þór Hinriksson gefur síðustu eintökin af hinni löngu uppseldu mynd Algjör Sveppi og töfraskápurinn. Eintökin eru árituð af Sveppa.