Árið 2005 var vogunarsjóðurinn Reykjavík Global  settur á laggirnar hjá Glitni. „Sjóðurinn var stofnaður í Lúxemborg, við vildum hafa alþjóðlegar reglur í kringum sjóðinn en honum var stýrt frá Íslandi. Eigið fé sjóðsins var í krónum en hann hafði heimild til viðskipta bæði á innlendum og alþjóðlegum markaði og hafði heimild til gírunnar. Þannig byrjuðum við 2005 og árin 2006 og 2007 gengu bærilega. Við vorum auðvitað á fullu að læra. Eftir árin 2006 og 2007 gerðum við okkur grein fyrir að meginávinningur sjóðsins væri  á alþjóðlega markaðnum þrátt fyrir mikla uppsveiflu í innlendum hlutabréfum. Meðal annars vorum við að fjárfesta í fyrirtækjum í BRIC-löndunum svokölluðu (Brasilía, Rússland, Indland og Kína). Við fjárfestum í gegnum Bandaríkin og vorum að kaupa kauphallarsjóði  BRIC-landanna en aðvitað líka bandarísk hlutabréf og kauphallarsjóði. Þarna var burðarásinn í ávöxtun sjóðsins.

Við byrjuðum svo að vinna í því í lok árs 2007 að breyta samþykktum Reykjavik Global þannig að eigið fé sjóðsins færðist úr krónum yfir í dollara. Þetta þurfti að fara í gegnum fjármálaeftirlitið í Lúxemborg og tók heila átta mánuði. Við fengum heimildina í ágúst 2008 og þá færðist allt eigið féð úr krónum yfir í dollara. Í október 2007, nærri ári áður, höfðum við selt öll hlutabréf sem við áttum á alþjóðlegum markaði. Þar fylgdum við O’Neillútgáfunni af því að tapa ekki peningum: ,,Öll hlutabréf eru vond, nema þau sem eru að hækka“, þrumar hann yfir nemendum sínum. Og frá haustinu 2007 fundum við engin áhugaverð hlutabréf í hækkun á alþjóðlegum markaði og því voru öll hlutabréf seld.“

Getur þú útskýrt þessa aðferðafræði aðeins nánar?

„Maður verður að skilgreina hækkunarleggi með einhverjum hætti. Ég er ekki að tala um hækkun milli daga. Þarna byggjum við á  Dow  Theory. Þar er skýrt að í sögu hlutabréfa skiptast á hækkunarleggir og lækkunarleggir. Auðvitað átti Jesse Livermore sinn þátt í að móta þessa hugsun líka, Richard Wyckoff og fleiri fyrir um 100 árum. Það er hægt að skilgreina hækkun eftir ýmsum leiðum. Allra einfaldast er að draga bara hækkandi stuðningslínu undir lággildi sem er gamalgróin tæknigreining. Við höfum alla tíð notað  kvantitatífa (e.  quantitative) stýringu. Þannig að við notuðum hlaupandi meðaltöl og bjuggum okkur til reglur um það hvaða skilyrðum hlutabréfin þyrftu að fullnægja til þess að teljast í hækkunarlegg svo að við gætum átt þau. Haustið 2007 var lítið um hlutabréf á alþjóðlegum markaði í hækkunarlegg þannig við vorum búin að selja öll erlend hlutabréf. Það voru líka komin sölumerki á innlend hlutabréf í eigu Reykjavik Global haustið 2007 og við seldum þau sem við áttum nema í einu félagi sem loks var selt í febrúar 2008.“

Hafðirðu á þessum tíma einhverja hugmynd um það sem var í vændum eins og undirmálslánakrísuna í Bandaríkjunum?

„Ekki grænan grun, alls ekki. Við fylgdum bara merkjum.“

Hvers konar tilfinning er það að fylgjast með fjármálamörkuðum hrynja en hafa náð að losa sig við eignir í sínum eigin sjóði áður en áfallið hrynur yfir?

„Tilfinningin var ótrúleg. Ég hef aldrei upplifað aðrar eins hremmingar. Ég var sjálfur með pínulítinn einkareikning þannig ég fékk alveg í æð þessar breytingar sem voru að gerast. Þar gat ég verið með skortstöður og oft í gegnum tvöfalda gagnvirka kauphallarsjóði. Þetta gerist frá haustinu 2007 og Reykjavik Global var aðeins í skuldabréfum og víxlum frá febrúar 2008. Sjóðurinn var í öruggum málum en varðandi alþjóðlega markaðinn sjálfan þá hef ég aldrei kynnst öðru eins.“

Rose Invest varð að Landsbréfum

Eftir að Reykjavík  Global  var gerður upp vorið 2009 með nærri 20% árlegri ávöxtun frá stofnun í desember 2005 og næstum tvöföldun eigna stofnaði Sigurður sitt eigið verðbréfafyrirtæki ásamt Svandísi R. Ríkarðsdóttur. Þau hafa starfað saman frá árinu 2004 og skrifuðu meðal annars bókina Lesið í markaðinn sem kom út árið 2016 með stuðningi Landsbankans. Svandís er í dag sviðstjóri Eignarstýringar hjá Brú lífeyrissjóði og forseti IMAA, Félags markaðsgreinenda á Íslandi. „Við Svandís vorum að hugsa okkur til hreyfings. Þetta endaði með því að við stofnuðum okkar eigin rekstrarfélag sem hét Rose Invest hf. Það náðust ekki alveg samningar við Glitni. Allt var auðvitað í uppnámi vegna hrunsins og rykið var langt frá því að vera sest. Kannski var vogunarsjóður ekki toppurinn á tilverunni vorið 2009 og bankinn hafði ekki áhuga á því að halda áfram rekstri Reykjavik Global án okkar. Við fórum af stað með eigið rekstrarfélag og tvo venjulega verðbréfasjóði (UCITS) sem störfuðu á erlendum markaði.

Það hefur ekkert verið hlaupið að því að stofna erlendan verðbréfasjóð árið 2009 þegar allt innlent fjármagn var bundið í höftum?

„Nei, það var það nefnilega ekki. Það var erfiðara en við gerðum okkur grein fyrir í byrjun. Aðeins kom til greina fé sem þegar var á erlendum markaði og lífeyrissjóðir voru ekki mikið í að færa sig til. Við stofnuðum fyrst einn sjóð og bættum svo öðrum við og rákum þá í liðlega tvö ár. Við vorum bara tvö og þetta var enginn  „booming  business“  vegna fjármagnshaftanna. Síðan gerist það að forráðamenn Landsbankans marka þá stefnu að verða sér út um annað rekstrarfélag fyrir verðbréfasjóði. Fyrra félag bankans hét Landsvaki en forsvarsmenn bankans óttuðust að það félag gæti lent í hremmingum vegna málaferla sem voru í gangi. Þetta endaði þannig að bankinn keypti okkar rekstrarfélag, Rose Invest hf., sem að í dag heitir Landsbréf hf.

Við fórum því til starfa hjá Landsbankanum þar sem ég var formaður fjárfestingarráðs eignarstýringar og Svandís var sjóðstjóri. Þar lét ég af störfum árið 2015 vegna aldurs en síðustu misserin hjá Landsbankanum fóru í rannsóknarvinnu að baki Lesið í markaðinn. Við Svandís unnum saman að bókinni þar og hún kom svo út í apríl 2016.“

Ný bók í vinnslu

Hvað hefur þú verið að fást við síðan þú lést af störfum hjá Landsbankanum?

„Í dag er ég er að sinna mínum eigin fjárfestingum hjá eigin fyrirtæki, Rose  Atlantic. Við Svandís erum svo áfram í rannsóknavinnu og erum að vinna að nýrri bók. Lesið í markaðinn fjallar um sögu fjárfestingaraðferðanna, hvernig þær urðu til. Klassíski skóli eignastýringar er frá Wall Street um 1900 með Dow Theory og öðrum sem fylgdu á eftir, kenningum þe irra  Jesse  Livermore,  Wyckoffs  og fleiri. William  O’Neill  tók svo klassíska skólann upp á sína arma um miðja 20. öldina og hann er enn á lífi. Nýklassíski skólinn varð til frá 1950 til 1970 en allt þetta gerist í Bandaríkjunum.

Núna erum við að skrifa um alþjóðlega fjárfestingu. Henni er eiginlega best lýst út frá bæjardyrum íslenskra lífeyrissjóða. Í alþjóðlegri fjárfestingu þarf að taka inn í myndina ekki bara hlutabréfa- og skuldabréfamarkað í hverju landi með stöðu og horfum heldur líka gjaldeyrismálin. Í þessari rannsóknavinnu kemur í ljós að sögu eignarstýringar má rekja 300 ár aftur í tímann en hún hófst eftir aldamótin 1700 í Bretlandi. Skuldabréfamarkaðurinn var þá að vaxa úr grasi og svo kemur hlutabréfamarkaður inn í myndina eftir að félög með takmarkaðri ábyrgð voru heimiluð.“

Nánar er rætt við Sigurð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .