Merking í Reykjavík og Format-Akron í Hafnarfirði sameinuðust um síðustu mánaðarmót. Fyrirtækin verða rekin fyrst um sinn á tveimur stöðum en hún mun 15. september næstkomandi flytjast að Viðarhöfða 4 í Reykjavík undir nafni Merkingar. Eigendur bæði Merkingar og Format-Akron eiga hið sameinaða félag, sem ætla má að velti um hálfum milljarði króna á ári, að því er fram kemur í tilkynningu.

Pétur Björnsson verður stjórnarformaður Merkingar eftir sameiningu en Pétur Ingi Arnarson verður framkvæmdastjóri.

Merking rekur skilta- og auglýsingasmiðju og er með 26 manns á launaskrá. Format-Akron sérhæfir sig í hönnun og vinnslu eininga úr plexígleri. Hjá fyrirtækinu starfa 11 manns.