Rétt áður en marsrall Hafrannsóknastofunnar hófst ákváðu sérfræðingar stofnunarinnar að merkja hlýra sem ekki voru kvarnaðir, en fimmti hver hlýri sem veiðist í hverju togi er kvarnaður í marsrallinu. Kvarnirnar eru notaðar til að aldursgreina hlýrann m.a. til að fá gögn til að geta metið vöxt og stofnstærð hans.

Forsaga þessara merkinga er að við síðustu ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar á afla á hlýra, voru sjómenn hvattir til að sleppa þeim hlýra sem þeir veiddu umfram kvóta. Það var gert vegna bágrar stöðu hlýrastofnsins og að almennt veiðist hlýri sem meðafli. Heimild til að gera það var veitt af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þann 14. desember síðastliðinn.

Nauðsynlegar merkingar

Á samráðsfundi sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sjómanna og útvegsmanna þann 26. febrúar var rætt um nauðsyn þess að merkja hlýra m.a. til að rannsaka lífslíkur hans eftir veiðar. Rannsóknir benda til að lífslíkur hlýra séu talsverðar eftir veiðar og til stendur að rannsaka það nánar á þessu ári og eru þessar merkingar í liður í því, en merktir voru um 150 hlýrar í marsrallinu.

Viljum við hvetja sjómenn til að veita því eftirtekt hvort að þeir hlýrar sem þeir meðhöndla séu merktir. Hægt er að senda merkin til Hafrannsóknastofnunar ásamt upplýsingum um það hvar og hvenær fiskurinn veiddist og nafnið á bátnum eða skipinu sem hlýrinn var veiddur á. Standi til að sleppa hlýranum er nóg að mæla lengdina, fjarlægja merki og skrá að fisknum hafi verið sleppt, ef ekki þá er gott að fá líka kyn og kvarnir. Við kvörnunina er skorið beint í hausinn u.þ.b. þumlung aftan við augun, þar liggja kvarnirnar í hólfum í hausnum, þær eru smáar eða um 5 millimetrar á lengd og eru hvítar á lit. Nafn og heimilisfang finnandans þarf að fylgja með sendingunni, en verðlaun eru veitt fyrir skil á merkjum, 2000 krónur fyrir hvert slöngumerki.