„Við viðurkennum mistök, þetta er leiðindamál,“ segir Ragnar Davíð Baldvinsson, sölu og markaðsstjóri Icewear. Vegna mistaka starfsmanns fyrirtækisins við vöruskráningu á vefsíðu Icewear sagði að teppi frá því væri innlend framleiðsla úr íslenskri ull. Teppið er hins vegar framleitt innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) úr erlendri ull. Málið var sent til Neytendasamtakanna og fengu forsvarsmenn Icewear nýverið bréf í hendur frá þeim vegna málsins. Ragnar segir í samtali við vb.is Icewear leitast við að leiðrétta mistökin.

Icewear sendi frá sér tilkynningu vegna málsins í gær og er þar tekið fram að allar vörur í vörulínu Icewear eru sérstaklega merktar sé um Íslenska framleiðslu að ræða. Hvergi komi fram á merkingu umræddrar vöru að um Íslenska framleiðslu væri að ræða.

Icewear keypti Víkurprjón í fyrravor og er framleiðsla þess um helmingurinn af ullarframleiðslu sameinaðs fyrirtækis. Verksmiðjurnar eru tvær hér á landi þar sem vörur undir merkjum Icewear eru framleiddar úr íslenskri ull. Önnur verksmiðjan er hjá Víkurprjón í Vík í Mýrdal en hin á Ásbrú á Reykjanesi. Sú seinni var opnuð í desember í fyrra.