Raftækjakeðjan Merlin í Danmörku hefur verið sektað fyrir um 150 þúsund danskar krónur eða um 2,4 milljónir íslenskra króna.

Sektin kemur til vegna villandi auglýsingamennsku á árunum 2004 – 2005 og hafði talsmaður neytenda í Danmörku gefið út ákæru vegna þessa. Merlin var áður í eigu Baugs en er nú í eigu Árdegis hf.

Málið er þannig vaxið að á umræddu tímabili hafði Merlin og Electronic World (sem þá var í eigu Merlin) gefið út reglulega tilboðsbæklinga þar sem finna mátti svokölluð „fyrir“ og „eftir“ verð og var þá „eftir“ verðið gildandi útsöluverð.

Neytendur eru hins vegar vel vakandi í Danmörku og fljótt fóru að berast kvartanir til umboðsmanns neytenda. Í ljós kom að „tilboðsverðin“ voru þau verð sem höfðu gilt um vöruna áður en hún var auglýst á útsölu.

Fyrirtækið er því sem fyrr segir sektað fyrir villandi auglýsingar og mun í framhaldinu breyta verklagi sínu þegar kemur að útsölum. Auk þess kom til lækkunar að búðin hefur, síðan kæran var gefin út, birt leiðréttingar á verðum sínum.