Merrill Lynch sagðist í gær þurfa að afskrifa 5,7 milljarða Bandaríkjadala af skuldum. Um leið tilkynnti bankinn um fyrirætlanir sínar um að verða sér úti um 8,5 milljarða dala fjármagn með útgáfu nýrra hluta.

Tap Merrill Lynch á 2. ársfjórðungi var 4,9 milljarðar dala, en inni í því uppgjöri voru 9 milljarða dala afskriftir.

Tap Merrill Lynch undanfarið ár nemur nú 19,2 milljörðum dala og á því tímabili hefur bankinn afskrifað meira en 40 milljarða dala. Virði hlutabréfa bankans er minna en þriðjungur þess sem það var fyrir ári síðan.