Afkoma fjárfestingabankans Merrill Lynch á þriðja fjórðungi var sú versta í 93 ára sögu bankans og átti það stóran þátt í að hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum lækkuðu nokkuð í dag eftir hækkun síðustu tvo daga. Nasdaq lækkaði um 0,9%, S&P 500 um 0,2% en Dow Jones lækkaði óverulega.

Merrill Lynch lækkaði um 5,5% innan dagsins eftir að hafa skilað 2,2 milljarða dala tapi á fjórðungnum, sem er meira en búist hafði verið við að sögn Wall Street Journal. Tapið stafar af því að bankinn færði sérstaklega niður 7,9 milljarða dala vegna skuldabréfaviðskipta og hefur þessi mikla niðurfærsla endurvakið áhyggjur af umfangi erfiðleikanna á lánsfjármarkaðnum. Niðurfærslan nú er meiri en allur hagnaður bankans í fyrra.