Bandaríski fjárfestingabankinn Merrill Lynch, sem með aðstoð bandarískra yfirvalda var tekinn yfir af Bank of America í haust, greiddi helstu stjórnendum sínum milljarða Bandaríkjadali í bónusa þegar bankinn var við það að falla.

Þetta kemur fram í umfjöllun breska blaðsins The Daily Telegraph í dag.

Þar kemur fram að allt að 4 milljarðar dala hafi horfið úr bankanum um miðjan desember, nokkrum dögum áður en samruninn við Bank of America tók gildi, þann 1. janúar á þessu ári.

Rétt er að taka fram að sameiginlegur banki, sem nú starfar undir nafni Bank of America mun að eigin sögn fá um 20 milljarða dali á næstu misserum frá stjórnvöldum vestanhafs.

Fram kemur í umfjöllun Telegraph að peningarnir hafi verið notaðir til að greiða helstu stjórnendum og millistjórnendum bankans bónusgreiðslur í byrjun desember. Það sem vekur frekar athygli er að bónusgreiðslur bankans hafa hingað til verið greiddar út í janúar eða febrúar.

Þá er talið að um 15 milljarðar dala hafi verið greiddir í bónusa og kaupauka á síðasta ári sem er aðeins 6% minna en árið 2007. Þetta á þó enn eftir að fást staðfest þar sem efnahagsreikningur bankans liggur ekki enn fyrir.

Þó liggur fyrir að á fjórða ársfjórðungi 2008 nam tap bankans um 21,5 milljarði dala.

John Thain sagður ábyrgur fyrir bónusgreiðslum

John Thain, fyrrv. forstjóri Merrill Lynch sagði í gær upp störfum hjá sameiginlegum banka en áður hafði verið tilkynnt að hann myndi áfram sjá um rekstur þess hluta sem áður tilheyrði Merrill Lynch.

Telegraph fullyrðir að hann hafi verið neyddur til að fara.

Hann er sagður ábyrgur fyrir bónusgreiðslunum í desember sem ónafngreindur heimildarmaður Telegraph, sem starfar innan Bank of America, segir að séu úr takt við gengi bankans og mjög óviðeigandi í ljósi þess að þær eru greiddar út nokkrum dögum fyrir sameiningu.

Í tilkynningu frá Bank of America í gær kemur fram að fram til 1. janúar á þessu ári hafi Merrill Lynch verið með öllu sjálfstæður banki og því geti Bank of America á engan hátt tekið ábyrgð á að stefnu helstu stjórnenda Merrill Lynch fyrir þann tíma.

Thain er þriðji stjórnandi Merrill Lynch sem fer frá sameiginlegum banka eftir sameiningu. Telegraph segir að hann hafi undir lok síðasta árs eitt um 1,2 milljónum dala í að endurnýja skrifstofu sína.