Bandaríski fjárfestingabankinn Merrill Lynch mun að öllum líkindum þurfa að afskrifa um 5,4 milljarða Bandaríkjadali á öðrum ársfjórðungi til víðbótar að mati greiningaraðilar Lehman Brothers.

Reuters fréttastofan greinir frá því í dag að auknar afskriftir muni koma til vegna vandræða á skuldabréfamörkuðum líkt og hefur verið síðustu misseri.

Þegar hafði Lehman Brothers gert ráð fyrir því að Merrill Lynch myndi afskrifa rétt rúmlega 3 milljarða dali en sem fyrr segir hefur bankinn nú hækkað mat sitt. Reuters segir greiningaraðilar hingað til hafa gert ráð fyrir afskriftum hjá Merrill Lynch upp á 3,5 – 4,2 milljarða dali.

Þá hefur Reuters eftir viðmælanda sínum að fari svo að Merrill Lynch afskrifi fyrrgreindar upphæðir mun félagið þurfa að auka hlutafé sitt nokkuð eða selja eignir. Þó sé erfitt fyrir félagið að selja mikið af eignum sínum þar sem þær kunna að skapa miklar tekjur í framtíðinni.