Saksóknari New York fylkis hefur hótað að lögsækja Merrill Lynch bankann fyrir að segja ákveðnar skuldabréfafjárfestingar vera öruggari en þær voru.

Saksóknarinn, Andrew Cuomo, sagði lögsókn vera yfirvofandi, samkvæmt frétt BBC.

Merrill Lynch hefur boðist til þess að kaupa til baka ARS-skuldabréf (e. auction rate securities) að andvirði 12 milljarða Bandaríkjadala, til að bæta fyrir mistök sín. Bankinn segist undrandi á hótunum Cuomo. Í yfirlýsingu segist Merrill Lynch hafa að undanförnu átt í viðræðum við yfirvöld um lausn vandans og að þær viðræður hafi gengið vel. Bankinn hafi búist við frekari viðræðum.

Fyrir hefur Wachovia bankinn fallist á að taka ARS-skuldabréf að andvirði 8,5 milljarða dala inn á bækur sínar aftur, auk þess að greiða 50 milljóna dala sekt. Viðlíka samningar hafa verið gerðir við Citigroup. UBS, JP Morgan og Morgan Stanley.

Markaður með ARS-skuldabréf hrundi í febrúar en áður höfðu bréfin verið markaðssett sem fjárfestingakostur álíka öruggur og peningamarkaðsbréf.