Merrill Lynch, sem nýlega sendi frá sér harðorða skýrslu um íslenska bankakerfið, hefur samþykkt að taka þátt í 500 milljón evra (42 milljarðar íslenskra króna) sambankaláni Kaupþings banka, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Bankinn skráði sig fyrir 25 milljónum evra, sem var stærsta upphæðin sem fjárfestum á sambankalánamarkaði stóð til boða, sagði Marc Dalgas, yfirmaður sambankalánadeilda HSH Nordbank, í samtali við Viðskiptablaðið í gær. HSH Nordbank, ásamt þýsku bönkunum DZ Bank og BayernLB, hafði yfirumsjón með sölu sambankalánsins til annarra banka.

Upphaflega stóð til að safna 250 milljónum evra en ákveðið var að hækka lánið í 500 milljónir evra í kjölfar mikillar umframeftirspurnar. Dalgas segir neikvæða umfjöllun greiningardeilda erlendra banka og fjölmiðla ekki hafa haft áhrif á sölu lánsins og að vaxtakjörin séu í samræmi við lánshæfismat Kaupþings banka, sem er A1 hjá Moody's Investors Service. Lánið er í tveimur hlutum, til þriggja og fimm ára. Vaxtakjörin á þriggja ára láninu eru 17,5 punktar yfir EURIBOR, sem eru millibankavextir í Evrópu, og 23,5 punktar á fimm ára láninu.

Í nýlegri skýrslu Merrill Lynch kom meðal annars fram að bankinn teldi lánshæfismat íslensku bankann ofmetið. Dalgas segir ekki innstæðu fyrir gagnrýninni og hann segist ekki taka mikið mark á umfjöllun bankans og norrænna fjölmiðla um íslenska banka- og hagkerfið. "Ég hef stundað viðskipti við Íslendinga síðan 1992 og þekki bankakerfið vel. Íslenskt eignasafn HSH Nordbank er á bilinu 800 milljónir til einn milljarður evra (67-84 milljarðar íslenskra króna) og yfirmaður greiningardeildar okkar er pollrólegur," segir Dalgas.