Fjárfestingabankinn Merrill Lynch er orðinn mun jákvæðari í garð evrópskra banka en hann hefur verið um nokkurt skeið, að því er fram kemur í nýrri skýrslu bankans um evrópska bankageirann.

Í skýrslunni kemur fram að fyrir rétt tæpu ári hafi Merrill Lynch mælt með undirvogun evrópskra banka og að skortstaða í þeim hafi almennt skilað góðum árangri. Með háu skuldatryggingaálagi bankanna, sem virðist gera ráð fyrir mjög miklum öfgatilvikum sem Merrill Lynch segist ekki hafa trú á að muni eiga sér stað, séu meiri líkur á að álagið minnki en að það aukist.

Mælir með yfirvogun stærri banka Evrópu

Í skýrslu Merrill Lynch koma fram miklar áhyggjur af þróun mála í Bandaríkjunum, en skýrsluhöfundar, og þeirra á meðal er Richard Thomas, taka fram að Evrópa sé ekki Bandaríkin og viðfangsefni evrópskra banka séu afar ólík því sem keppinautarnir í Bandaríkjunum standi frammi fyrir.

Merrill Lynch mælir nú með yfirvogun á skuldabréfum margra af stærri bönkum Evrópu, svo sem Lloyds TSB, RBS, Barclays, SocGen, BNP, Santander og Intesa Sanpaolo. Meðmæli Merrill Lynch miðast aðallega við stærri banka álfunnar og fram kemur að sem stendur sé ekki sé ástæða til að flýta sér í yfirvogun smærri banka. Í því sambandi eru nefndir íslensku bankarnir, minni spænsku bankarnir og írsku bankarnir.

Engu að síður kemur fram að sannfæringin fyrir skortstöðu í minni bönkunum sé mun minni en áður miðað við núverandi skuldaálag. Til að mynda er tekið fram að miðað við 650 punkta álag á Kaupþing sé ekki ástæða til frekari skorstöðu í bankanum.