General Motors (GM) þurfa að útvega um 15 milljarða Bandaríkjadala af nýju fjármagni til að hressa upp á greiðslugetu félagsins, að sögn Merrill Lynch. Merrill Lynch segir að gjaldþrot sé ekki óhugsandi, samkvæmt frétt Reuters.

Aðrir greiningaraðilar hafa sagt að GM verði að verða sér úti um fjármagn til að komast í gegnum niðursveifluna sem fyrirséð er á bílamarkaði Bandaríkjanna út árið 2009. Áætluð fjármagnsþörf GM að mati Merrill er þó sú mesta sem nokkur hefur giskað á enn sem komið er.

GM neitaði samkvæmt frétt Reuters að tjá sig sérstaklega um ummæli Merrill Lynch, en tók fram að fyrirtækið hefði nóg lausafé til rekstrar út árið 2008 og að það gæti tekið sparnaðarskref ef aðstæður halda áfram að versna.

Þessar vaxandi áhyggjur af afkomu GM koma í kjölfar þess að sölutölur í júní voru lægri en þær hafa verið í 15 ár.