Tap bandaríska fjárfestingabankans Merrill Lynch nam alls 2,1 milljarði bandaríkjadala eða því sem nemur 156 milljörðum íslenskra króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 2,1 milljarða dala hagnað á sama tíma í fyrra. Þetta er meira tap en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir að sögn Reuters fréttastofunnar.

Bankinn kynnti uppgjör sitt í morgun og greindi einnig frá því að til stæði að segja upp 4.000 manns á næstunni sem er um 10% starfsmanna bankans.

Afskriftir bankans á tímabilinu nema um 4,5 milljörðum dala eða um 334,3 milljörðum íslenskra króna. Bankinn hefur nú afskrifað um 24 milljarða Bandaríkjadali eða um 1.783 milljarða íslenskra króna á síðustu þremur ársfjórðungum að sögn Reuters.

Slæm stjórnun?

John Thain, forstjóri Merrill Lynch sagði að þrátt fyrir þessar tölur stæði bankinn á „traustum grunni,“ lausafé hans væri nægilegt og ekki þyrfti að koma til endurfjármögnunar.

Bloomberg fréttaveitan greinir þó frá því að greiningaraðilar vestanhafs kenni slæmri stjórnun um gengi bankans og segir einn viðmælandi Bloomberg að bankinn hafi farið „skelfilega“ út úr undirmálslánmörkuðum í Bandaríkjunum.

Annar viðmælandi segir þó að hlutfallslega sé tap bankans ekki verra en margra annarra banka. „Allir bankar koma illa út úr þessu og Merrill Lynch er ekkert sérdæmi miðað við umsvif bankans,“ sagði hann.

Hlutabréf í Merrill Lynch hafa lækkað um 16,4% frá áramótum.