Írska verðbréfafyrirtækið Merrion Capital, sem Landsbanki Íslands samþykkti að kaupa í fyrra fyrir 55,3 milljónir evra, gerði tilraun nýlega til að kaupa keppinautinn Bloxham Stockbrokers, segir í frétt The Sunday Business Post.

Blaðið segir Merrion hafa gert tilraun til að kaupa Merrion fyrir 25 milljónir evra á síðustu tólf vikum. Hins vegar hefur Landsbankinn sagt að bankinn sé ekki að leita eftir yfirtökum og ætli að einbeita sér að því að sameina þau fyrirtæki sem bankinn keypti í fyrra. Samkvæmt fréttinni var kauptilboðinu hafnað.

Árið 2005 keypti Landsbankinn breska félagið Teather & Greenwood fyrir 43 milljónir punda og síðar 81% hlut í evrópska fyrirtækinu Kepler Equities. Kaupverðið á Kepler miðað við 100% hlut nemur 90 milljónum evra.

Landsbankinn samþykkti svo kaupa 50% hlut í Merrion fyrir 27,65 milljónir evra og mun svo eignast allt hlutafé á næstu tveimur árum ef afkoma Merrion stenst væntingar. Kaupverðið miðað við 100% hlut nemur 55,3 milljónum evra.

The Sunday Business Post segir tilraun Merrion gefa til kynna að félagið hafi enn áhuga á að vaxa með yfirtökum með stuðningi Landsbankans þrátt fyrir umrót á íslenskum fjármálamarkaði.