Argentíska fótboltastjarnan Lionel Messi, sem spilar fyrir Barcelona, hefur verið dæmdur í 21 mánaða skilorðsbundið fangelsi ásamt föður sínum fyrir skattaundaskot.

Þarf ekki að sitja inni

Þar sem spænsk lög segja til um að allir dómar sem eru undir 2 árum og fela ekki í sér ofbeldisbrot séu skilorðsbundnir þurfa þeir því ekki að sitja neitt af sér í fangelsi.

Voru þeir sakfelldir fyrir að hafa komist hjá því að greiða 4,1 milljón evra í skatta af tekjum fótboltamannsins með því að nota fyrirtæki í skattaskjólum á árunum 2007 til 2009. Voru þau staðsett í Belize og Uruguay. Hafa þeir nú þegar greitt spænskum yfirvöldum leiðréttingu upp á 5 milljón evra.

Neita vitneskju

Neitaði Messi nokkurrar vitneskju um málið við réttarhöld 2. júní síðastliðinn, heldur sagðist hann hafa skrifað undir skjöl án þess að lesa þau, því hann treysti föður sínum og lögfræðingunum.

Faðir hans neitaði einnig að hafa gert nokkuð af sér „Ég skil þessi lög jafnvel og ég skil kínversku. Ég hafði enga þekkingu á lögunum og einfaldlega játaði og neitaði þeim tillögum sem lagðar voru fram fyrir mig. Markmið mitt var að gera lífið einfaldara fyrir son minn, að vera honum til staðar og leyfa honum að einbeita sér að fótbolta. En að lokum þurftum við lögfræðilega og bókhaldslega hjálp,“ sagði hann.