Meðalfjárhæð greiddrar leigu á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 6% á föstu verðlagi milli ára í maí. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins lækkaði leiga um 11,5% milli ára en 4,5% á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu nam meðalfjárhæð greiddrar leigu í maí síðastliðnum 194 þúsund krónum en 210 þúsund krónum í apríl og nóvember árið 2018. Samhliða þessari lækkun hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,6% á síðustu tveimur árum, frá apríl 2018 til apríl 2020.

Aukið framboð birtist vegna fækkunar ferðamanna

Samhliða uppgangi ferðaþjónustunnar hafa margir Íslendingar séð hag sinn í því að leigja húsnæði til ferðamanna í gegnum vefinn Airbnb. Á fyrri hluta árs 2019 voru 178 þúsund bókanir skráðar í gegnum téðan vef en 209 þúsund árið áður, samkvæmt heimildum Ferðamálastofu. Í ár hafa þær verið 63 þúsund eða tæplega þriðjungur af framboði ársins 2018.

Slíkur samdráttur gerir eflaust var við sig á leigumarkaði hérlendis og framboð á leiguhúsnæði til Íslendinga kann því að aukast verulega. Til að mynda hafa þinglýstir leigusamningar, samkvæmt skýrslu Húnsæðis- og mannvirkjastofnun, aukist um 57% á höfuðborgarsvæðinu í júní, miðað við sama mánuð í fyrra. Ef horft er til annars ársfjórðungs nam aukningin 16% á höfuðborgarsvæðinu milli ára. Á sama tíma hefur hlutfall fyrstu kaupenda á fyrri helmingi ársins aldrei verið hærra.

Hefur ekki afgerandi áhrif á leigufélögin

Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla, segir að aukið framboð sökum fækkunar ferðamanna hafi að mestu leyti komið fram nú þegar. Tekur hann fram að leiguverð sé „nokkuð seigfljótandi“ og því ekki viðbúið að það komi til með að lækka enn frekar.

Gott sem allar tekjur félagsins koma frá leigutekjum, þar af tæplega helmingur vegna leigustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Sambærilega sögu má segja frá rekstri leigufélagsins Ölmu þar sem ríflega 80% af tekjum félagsins koma vegna langtímaleigu, þar af eru yfir 60% vegna leigustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu.

„Við höfum séð leiguverð lækka hvað mest í miðbænum og þar í grennd, þar sem flestar Airbnb íbúðir voru. Heilt yfir gusaðist framboðið á markað í vor, bæði til sölu og leigu. Núna tel ég að markaðurinn sé að ná meira jafnvægi og að leiguverð muni ekkert koma til með að lækka til lengri tíma, frá því sem það er í dag,“ segir Gauti.

Gauti segir að faraldurinn hafi áhrif á Heimavelli, líkt eins og önnur félög. Samt sem áður hafa vextir lækkað samhliða lækkandi leigu sem gerir leigufélögum kleift að bjóða hagstæðari kjör. Heimavellir hafi nýtt núverandi vaxtaumhverfi til að endurfjármagna reksturinn á hagstæðari kjörum og búi því við betri rekstrarskilyrði að því leytinu til en áður. Hann segist ekki hafa fundið fyrir auknum áhuga viðskiptavina á að endursemja um leigukjör.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .