Fyrirtæki ætla á næsta ári ýmist að auka útgjöld sín til markaðs- og sölumála eða halda þeim óbreyttum, eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu á miðvikudag í síðustu viku. Þetta er niðurstaða könnunar sem PSN-samskipti ehf. gerðu fyrir blaðið meðal ríflega 200 markaðsstjóra. Aðeins 8% markaðsstjóranna sögðust ætla að draga úr fjármagni til markaðs- og sölumála. 45% sögðust ætla að auka það og 47% að halda því óbreyttu.

Mest aukning á netinu og í sjónvarpi

Netið verður sá auglýsingamiðill sem mun hafa hlutfallslega mestan ávinning af þessari þróun, ef marka má niðurstöður könnunarinnar. Af þeim sem á annað borð auglýsa á netinu (47%) sögðust 58% ætla að auka auglýsingar sínar þar. Aðeins 1% sögðust ætla að minnka þær.

Á hinn bóginn bendir könnunin til að auglýsingar í tímaritum aukist minnst. Af þeim sem verja fé til auglýsinga í tímaritum (69%) sögðust aðeins 22% ætla að auka það en 7% sögðust ætla að draga úr því.

Dagblöð eru núna vinsælasti auglýsingamiðillinn samkvæmt könnuninni, ásamt tímaritum; 69% fyrirtækja í könnuninni sögðust auglýsa í hvorum miðli. Dagblöðin eiga hins vegar betra ár í vændum en tímarit því að 36% þeirra sem kaupa auglýsingar þar sögðust ætla að auka þær. Á hinn bóginn standa dagblöðin verst að vígi ef aðeins er horft á hlutfall þeirra sem ætla að draga úr auglýsingum, því að 8% sögðust ætla að draga úr auglýsingum þar.

Næstmest aukning verður í sjónvarpi því að 42% þeirra sem auglýsa þar á annað borð (32%) sögðust ætla að auka þær. Tæp 7% sögðust ætla að draga úr auglýsingum í sjónvarpi.

Útvarpið má ágætlega við una. Af þeim sem auglýsa þar (44%) sögðust 31% ætla að bæta í en 7% sögðust ætla að draga úr.

Þeir stóru skera helst niður í dagblöðum

Fróðlegt er að skoða aðeins svör markaðsstjóra hjá fyrirtækjum með 500 milljóna króna veltu á ári eða meira -- sem við skulum hér kalla stórfyrirtæki. Þetta eru um 40% fyrirtækja í könnuninni. Gera má ráð fyrir að stefna þessara fyrirtækja í markaðsmálum skipti fjölmiðlana mestu máli, enda væntanlega um mestar fjárhæðir að tefla.

Í ljós kemur að mynstrið er hið sama -- en eindregnara -- varðandi "metin þrjú" sem mestu máli skipta: aukningin verður mest á netinu en minnst á tímaritum og hlutfall þeirra sem ætla draga úr auglýsingum er hæst hjá dagblöðunum.

70% markaðsstjóra þeirra stórfyrirtækja sem auglýsa á netinu ætla að auglýsa meira þar en enginn ætlar að draga úr. Aukningin er sem fyrr næstmest í sjónvarpi eða 49%. Á hinn bóginn ætlar aðeins 21% þeirra stórfyrirtækja sem auglýsa í tímaritum að auka auglýsingar þar. 7% ætla að draga úr þeim.

Hvað samdrátt varðar skera dagblöðin sig úr. Hvorki meira né minna en 11% stórfyrirtækja sem auglýsa í dagblöðum ætla að draga úr auglýsingum þar. Þetta hljóta að teljast alvarleg tíðindi fyrir blöðin. Hlutfall þeirra sem auglýsa í dagblöðum er talsvert hærra hjá veltumestu fyrirtækjunum en öðrum (73% samanborið við um 60% meðal fyrirtækja með minni veltu en 500 milljónir á ári) og sem fyrr segir er hér um að ræða um 40% allra fyrirtækja í könnuninni.

Könnun PSN-samskipta ehf. var framkvæmd dagana 20.-23. desember en um úrvinnslu sá Force á Íslandi. Alls tóku 220 markaðsstjórar þátt í henni.

Byggt á frét í Viðskiptablaðinu