Í búðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu voru 4.845 talsins í september síðastliðnum samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins (SI). Eru þetta 752 fleiri íbúðir en í síðustu talningu í mars og 1.111 fleiri en í september árið 2017. Íbúðum í byggingu hefur því fjölgað um tæplega 30% milli ára. Íbúðir í byggingu nema nú um 5,6% af heildarfjölda íbúða á höfuðborgarsvæðinu í upphafi árs en hlutfallið var 4,7% í mars á þessu ári. Langflestar af þeim íbúðum sem eru í byggingu eru í fjölbýli eða 4.466 og hefur fjölgað um 21% frá því í mars. Sérbýli í byggingu hefur hins vegar fækkað um 5% og eru nú 379.

Reykjavík undir meðaltali

Þegar staða einstakra sveitarfélaga er skoðuð kemur í ljós að hlutfallsleg aukning íbúða í byggingu milli ára var mest í Reykjavík eða 56% en þeim fjölgaði úr 1.509 í 2.355 og er það mesta aukning í einstöku sveitarfélagi á milli ára. Þrátt fyrir mikla aukningu er fjöldi íbúða í byggingu  um 4,5% af heildarfjölda íbúða í höfuðborginni en það hlutfall er 1,1 prósentustigi undir meðaltali höfuðborgarsvæðisins sem er 5,6%. Hlutfallið er einungis lægra í Hafnarfirði þar sem það er 1,2% og á Seltjarnarnesi eða 0,9%.

Hlutfallið af heildarfjölda íbúða er hins vegar hæst í Mosfellsbæ eða 15,1% þar sem 541 íbúð er í byggingu. Þar á eftir kemur Garðabær þar sem hlutfallið er 11,7% með 651 íbúð í byggingu og Kópavogur með 8,8% og 1.161 íbúð í byggingu.

Lítið breytt spá

Samkvæmt spá SI gera samtökin ráð fyrir að 2.084 fullgerðar nýjar íbúðir verði á höfuðborgarsvæðinu í ár. Er þetta sama spá fyrir árið í ár eins og í mars síðastliðnum. Spáin gerir ráð fyrir 2,4% fjölgun íbúða sem er 0,9 prósentustigum meiri fjölgun en í fyrra þegar vöxturinn mældist 1,5%. Bendir SI á að lítið hafi verið fullbúið af nýjum íbúðum í fyrra. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 5.650 en á sama tíma hafi 1.337 fullbúnar íbúðir bæst við. Því sé ljóst að fullbúnar íbúðir hafi verið langt undir þörf. Spá SI gerir jafnframt ráð fyrir því að fullgerðar íbúðir á árinu 2019 verði 2.226 sem yrði fjölgun upp á 2,3%. Eru þetta 202 fleiri íbúðir en í spá samtakanna frá því í mars. Þá er gert ráð fyrir 2.695 fullgerðum íbúðum árið 2020. Er það 87 íbúðum fleiri en í marsspánni. Í heildina gerir SI nú ráð fyrir að 7.005 íbúðir verði fullbúnar á tímabilinu 2018-2020.

Horfir til betri vegar

„Ég myndi telja að þessi þróun sé klárlega jákvæð,“ segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, spurður út í stöðuna á húsnæðismarkaði. „Það fer kannski eftir því hvernig á þetta er litið hvort markaðurinn sé að nálgast jafnvægi en hann er allavega að færast í átt að því. Ef við sjáum þessa spá ganga eftir sem er núna búið að færa upp frá þeirri síðustu þá bendir allt til þess að þetta horfi til betri vegar. Þó við sjáum það ekki ennþá,  þá bendir flest til þess að það sé að hægja á í hagkerfinu.  Þá er óhjákvæmilegt að það dragi úr fólksfjölgun vegna þess að tilhneigingin hefur verið sú að fólksfjölgun á  Íslandi er mjög tengd hagsveiflunni.

Á sama tíma og framboðið er að aukast gætum við verið að horfa upp á mun minni fólksfjölgun og það þýðir einfaldlega að það eru færri að bítast um þessar  fáu íbúðir sem hafa verið þarna úti.  Þróunin hefur verið akkúrat í hina áttina síðustu ár sem er ein ástæða þessa vanda sem uppi hefur verið.

Að sögn Konráðs ríkir þó líklega enn framboðsskortur á markaðnum. „Flestar greiningar gera ráð fyrir því. Eðli málsins samkvæmt, miðað við hvað það tekur langan tíma að byggja þá er óraunhæft að þetta leysist á einni nóttu. Ég er heldur ekki viss um að við myndum vilja að þetta leystist á einni nóttu því þá gætum við farið of langt í hina áttina, það viljum við ekki heldur. Að þetta gerist passlega hratt er líklega til lengri tíma best fyrir alla. Það er hins vegar flest sem bendir til þess að staðan á húsnæðismarkaði sé að þróast til betri vegar. Það er bara spurningin hversu hratt og hversu mikið það mun gerast.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .