Gistinóttum á hótelum hérlendis fjölgaði í maímánuði um 7% á milli ára, og voru þær 303 þúsund í síðasta mánuði. Stóðu erlendir gestir fyrir 87% af heildarfjöldanum, og fjölgaði gistinóttum þeirra um 6% milli ára, meðan fjölgun gistinótta Íslendinga nam 15%.

Í maímánuði síðastliðnum var herbergjanýtingin 62,6%, sem er minnkun um 2,4 prósentustig frá því í maí árið 2016, en þá var hún 65,0%. En á sama tíma hefur framboðið aukist um 10%, úr 8.269 herbergjum í 9.128. Besta nýtingin var á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hún var um 70,6%, að því er Hagstofan greinir frá.

Nálega þriðjungs aukning

Ef horft er til 12 mánaða tímabils jókst heildarfjöldi gistinátta um 30% upp í 4.142.000. Flestar gistinætur á hótelum í maí voru skiljanlega á höfuðborgarsvæðinu, eða 176.400, sem er aukning um 1% á milli ára, en hlutfall þeirra nam 58% af heildarfjöldanum.

Mest aukning í fjölda gistinátta var á Suðurnesjum, en aukningin nam 65% á milli ára og voru þær 20.400 í maímánuði. Einnig var aukning á Norðurlandi, en þar voru þær 28.800 sem er 26% aukning frá því í maímánuði í fyrra.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum var hins vegar 1% samdráttur á milli ára, en heildarfjöldi gistinátta á því svæði voru 15.600. Fjölmennasti hópur erlendra gesta voru Bandaríkjamenn, en þeir voru með 85.300 gistinætur, Þjóðverjar voru svo næstflestir með 34.300 gistinætur, og Bretar með 28.600, meðan Íslendingar sjálfir voru með 38.800 gistinætur.