Þegar skoðuð er dreifing launa milli starfsstétta sést að hún er mjög mismunandi. Reyndist hún mest meðal stjórnenda en minnst meðal skrifstofufólks samkvæmt tölum frá Hagstofunni.

Allir stjórnendur flokkaðir saman

Um 80% skrifstofufólks var með heildarlaun á bilinu 338 þúsund krónur til 607 þúsund króna, meðan sama hlutfall stjórnenda voru með laun allt frá 546 þúsund krónum til 1.644 þúsund krónum.

Skýrist það af því hvernig stjórnendur eru flokkaðir saman í starfsflokkunarkerfismælingunum sem Hagstofan notar, því í sama hópin má bæði finna æðstu stjórnendur fyrirtækja og yfirmenn deilda.

Önnur röðun en í meðallaunum

Stjórnendur voru með hæstu meðallaun allra starfsstétta eða 1.001 þúsund krónur á mánuði, en ef horft er á tölurnar eftir hópum sést að þó hæstu meðallaunin séu meðal starfsmanna ríkisins líkt og Viðskiptablaðið hefur þegar fjallað um , voru hæstu laun stjórnenda á almennum vinnumarkaði.

Voru stjórnendur á almennum vinnumarkaði að meðaltali með heildarlaun 1.156 þúsund krónur á mánuði, stjórnendur hjá ríki með 968 þúsund krónur en stjórnendur hjá sveitarfélögum voru með 722 þúsund krónur.