Launagreiðendum fjölgaði um 3,8% á 12 mánaða tímabili frá febrúar 2017 til janúar 2018 miðað við 12 mánuði þar á undan að því er Hagstofan greinir frá. Nam fjölgunin 648 launagreiðendum en þeir greiddu að meðaltali um 189.200 einstaklingum laun á tímabilinu. Er það aukning um 8.400 launþega, eða 4,7% launþega samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.

Í sjávarútvegi hefur launþegum fækkað undanfarin ár. Í ársbyrjun 2017 var sjómannaverkfall og voru launþegar í sjávarútvegi mun færri en venjulega fyrstu mánuði þess árs. Því gefur það réttari mynd að bera fjölda launþega í janúar 2018 saman við fjöldann tveimur árum fyrr, en launþegum í sjávarútvegi hefur fækkað um 8% á þessu tveggja ára tímabili.

Í janúar 2018 voru 2.552 launagreiðendur og um 12.400 launþegar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, og hafði launþegum fjölgað um 1.300 (12%) samanborið við janúar 2017. Í janúar voru 1.686 launagreiðendur og um 24.600 launþegar í einkennandi greinum ferðaþjónustu og hafði launþegum fjölgað um 900 (4%) á einu ári. Á sama tímabili hefur launþegum í heild fjölgað um 7.000 (4%).