*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 12. mars 2019 09:00

Mest fjölgun íbúða í 7 ár í janúar

Yfir 80% íbúða á höfuðborgarsvæðinu seljast undir ásettu verði. Fjölgun íbúða í fyrra var sú mesta frá árinu 2008.

Haraldur Guðjónsson

Mesta framboð íbúða, sem mælst hefur undanfarin sjö ár, var í janúar, en þá voru settar 1.880 íbúðir á sölu. Árið 2018 voru 154% fleiri nýjar íbúðir settar á sölu en árið 2017 og var fjölgun íbúða í fyrra sú mesta síðan 2008.

Jafnframt hefur mikill meirihluti íbúða selst undir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu eða 83%. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs.

Íslenski fasteignamarkaðurinn einkennist nú af byggingu nýrra íbúða. Sést þetta meðal annars á fjölgun þeirra á skrám fasteignasala en óvenju margar nýbyggingar komu inn til sölu í janúar sl., eða 362 íbúðir yfir landið allt.

Aðeins einu sinni frá árinu 2013 hafa fleiri nýbyggingar verið settar á sölu í stökum mánuði. Sé litið til alls síðasta árs, þá var 154% aukning í skráningu nýrra íbúða til sölu samanborið við árið 2017. Þá má nefna að í heildina voru 1.880 íbúðir settar á sölu í janúar sem er einnig mesta framboð íbúða sem mælst hefur á einum mánuði á undanförnum sex árum.

Hlutfall íbúðaviðskipta yfir ásettu verði sögulega lágt

Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði hefur ekki mælst jafnlágt síðan í byrjun árs 2013. Aðeins 4% íbúðaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu í janúar áttu sér stað yfir ásettu verði. 14% íbúða seldust á ásettu verði og 83% undir ásettu verði.

Í janúar var alls 756 leigusamningum þinglýst hér á landi sem er 16% fjölgun frá sama mánuði í fyrra. Flestum leigusamningum utan höfuðborgarsvæðisins var þinglýst á Suðurnesjum. Þar voru þeir alls 78 talsins sem samsvarar 18% fjölgun frá fyrra ári.

Mesta fjölgun íbúða síðan 2008

Íbúðum á landinu öllu fjölgaði um 2.400 í fyrra og eru þær nú 140.600 talsins. Til samanburðar fjölgaði íbúðum um 1.800 árið 2017. Um er að ræða mestu árlegu fjölgun íbúða síðan 2008. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði íbúðum um 542. Utan höfuðborgarsvæðisins varð mesta fjölgunin í Reykjanesbæ þar sem 227 íbúðir bættust við.

Húsnæðisbætur eru mikilvægur stuðningur við tekjulága á leigumarkaði segir í fréttatilkynningu Íbúðalánasjóðs. Heildarfjárhæð greiddra húsnæðisbóta í janúar var tæplega 530 milljónir kr. sem samsvarar 7% aukningu frá því í desember þegar 496 milljónir kr. voru greiddar út.

Hækkunin skýrist meðal annars af því að félags- og barnamálaráðherra staðfesti breytingu á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur sem hækkaði frítekjumörk húsnæðisbóta frá og með 1. janúar 2019.