Framtíð þess hluta fyrirtækisins Mest ehf., sem Glitnir tók ekki yfir, er enn óráðin. Vonir standa til þess að málin skýrist eftir helgi, að sögn Kára Lútherssonar, framkvæmdastjóra sölusviðs Mest. „Staðan er óljóst en það er verið að vinna að lausn málsins,“ segir hann.

Rekstur Mest ehf. hefur gengið erfiðlega að undanförnu en í byrjun vikunnar var upplýst að Glitnir, helsti lánadrottinn, hefði tekið yfir hluta af starfsemi fyrirtækisins, þ.e.a.s. steypustöðvar, helluframleiðslu og verslun með múrvörur.

Nýtt félaga var stofnað um þann rekstur sem ber heitið: Steypustöðin Mest ehf. Um hundrað manns halda þar með vinnu sinni.

Eftir stóð sá hluti reksturs Mest ehf. sem sér um tækjaleigu og sölu á byggingavörum. Óvissa ríkir um framtíð hans. Tugir starfsmanna starfa þar undir og óttast þeir að staðan sé það slæm að þeir fái ekki útborgað um næstu mánaðamót. Auk Glitnis er SP-Fjármögnun einn af helstu lánadrottnum Mest.

Ekki náðist í Pétur Guðmundsson, stjórnarformann Mest ehf., við vinnslu þessarar fréttar.