*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 13. október 2020 16:31

Mest hækkun á bréfum Sýnar

Langmestu viðskiptin voru með bréf VÍS í kauphöll Nasdaq í dag, en Sýn, Brim og Eimskip hækkuðu mest.

Ritstjórn

Gengi bréfa Sýnar hækkuðu um 3,65% í 49 milljóna króna viðskiptum í kauphöll Nasdaq á Íslandi í dag, og endaði gengið í 31,20 krónum. Heildarviðskiptin á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í dag námu 1,6 milljörðum króna en í þeim hækkaði Úrvalsvísitalan um 0,27%, upp í 2.189,96 stig.

Næst mest var hækkun bréfa Brim, eða um 2,33%, upp í 43,90 krónur, í 135 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru þriðju mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag. Þriðja mesta hækkunin var á bréfum Eimskipafélags Íslands, eða um 1,84%, í þó ekki nema 12 milljóna króna viðskiptum og enduðu þau í 138,50 krónum.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Símans, eða um 0,70%, niður í 7,13 krónur, í 168,2 milljóna króna viðskiptum sem jafnframt voru næst mestu viðskiptin. Mestu viðskiptin voru svo með bréf VÍS, eða fyrir 467 krónur, en gengi bréfanna hækkaði í þeim um 0,46%, upp í 11 krónur.

Krónan stóð í stað gagnvart evru

Gengi íslensku krónunnar stóð í stað gagnvart evru og fæst hún þá enn um sinn á 162,46 krónur, sem og gagnvart dönsku krónunni, sem fæst á 21,827 krónur.

Bandaríkjadalur styrktist hins vegar gagnvart krónunni, eða um 0,58%, upp í 138,34 króna kaupgengi, japanska jenið styrktist um 0,39%, upp í 1,3106 krónur og sænska krónan styrktist um 0,43%, upp í 15,694 krónur.

Breska pundið veiktist á móti um 0,15% gagnvart krónunni, og fæst það nú á 179,40 krónur, norska krónan veiktist um 0,13%, niður í 15,023 krónur og loks var gengislækkun svissneska frankans gagnvart íslensku krónunni rétt 0,03% og fæst hann því á 151,24 krónur.

Stikkorð: Eimskip Úrvalsvísitalan Brim VÍS krónan Sýn