Úrvalsvísitala Nasdaq Iceland hækkaði um 1,23% í viðskiptum dagsins í kauphöllinni en veltan á Aðalmarkaði hlutabréfa nam 5,6 milljörðum króna. Endaði hún í 1.717,10 stigum.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,27% í 5,5 milljarða viðskiptum og endaði hún í 1.230,29 stigum.

HB Grandi og Marel hækkuðu mest

Mest hækkaði gengi bréfa HB Granda eða um 4,25% í 103 milljóna króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 27,00 krónur.

Næst mesta hækkunin voru með bréf Marel eða 2,51% í 983 milljón króna viðskiptum. Enduðu bréf félagsins á að kosta 245,00 krónur hvert.

Icelandair og Fjarskipti lækkuðu

Af þeim viðskiptum sem námu einhverjum teljandi upphæðum lækkaði gengi bréfa Icelandair Group mest, eða um 0,82% í 1,24 milljarða viðskiptum og fæst hvert bréf félagsins nú á 24,20 krónur.

Gengi bréfa Fjarskipta hf lækkaði um 0,39% í 10,7 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 44,40 krónur.

Þess utan var Össur eina fyrirtækið sem lækkaði í viðskiptum dagsins, nam lækkunin 4,71% en viðskiptin hljómuðu einungis upp á 23 þúsund krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma hækkaði um 1,4% í dag í 5,7 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,2% í dag í 4,8 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 1 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,8% í 3,8 milljarða viðskiptum.