*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 8. september 2017 08:23

Mest hækkun á Patreksfirði og Vopnafirði

Þeir tveir staðir á landinu sem skipst hafa á að vera með lægsta fasteignamatið undanfarin ár hafa séð mestu hækkunina.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Eftir að heildarmat fasteigna hefur verið til skiptis lægst á Patreksfirði og Vopnafirði hefur heildarmatið hækkað hlutfallslega mest á þessum tveimur stöðum milli áranna 2016 og 2017. Er matið nú 15,2 milljónir á Vopnafirði en var 12,0 milljónir, en á Patreksfirði er það nú 14,5 milljónir, en var 11,7 milljónir, að því er segir á vef Byggðastofnunar.

Er fasteignamatið nú lægst í Bolungarvík, þar sem það er 65 þúsund krónum lægra en á Patreksfirði, en á landsbyggðinni er það hæst á Akureyri. Heildarmatið, það er samanlagt verðmat fasteignar og lóðar, hefur hækkað um 3-11% á milli áranna, eða frá 30 milljónum upp í 66 milljónir á viðmiðunarsvæðinum í höfuðborginni.

Ef skoðað er allt landið þá er fasteignamatið hins vegar langsamlega hæst í Suður-Þingholtunum í Reykjavík, en þar á eftir kemur Kópavogur í öðru og þriðja sæti, fyrst Vesturbær, síðan Hvörf og Þing. Loks er það Grafarholtið í Reykjavík í fjórða sæti.

Við matið er notuð viðmiðunareign, sem alltaf sú sama, einbýlishús sem er 161 fermetri að grunnfleti, með 808 fermetra lóðastærð, en verðið er reiknað út frá stærðum fasteignar og lóðar.